Réttaráhrif rafrænnar birtingar eiga að vera háðar samþykki viðtakanda
Samkvæmt lögum um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021, getur rafræn birting gagna í því pósthólfi haft sömu réttaráhrif og birting þeirra fyrir viðtakanda í eigin persónu. Með reglugerð nr. 131/2023 var einkaaðilum á borð við innheimtufyrirtæki veitt heimild til að nýta sér þennan rafræna birtingarmáta. Þetta getur átt við um stefnur, greiðsluáskoranir og fleiri gögn sem geta haft víðtæk og íþyngjandi réttaráhrif og þurfti því áður að koma þeim til viðtakanda með ábyrgðarbréfi, stefnuvotti eða öðrum sannanlegum hætti. Vandamálið er að rafræna birtingin tryggir ekki að erindið berist raunverulega til viðtakanda, til dæmis ef hann getur ekki eða vill ekki nýta sér stafræna tækni en þá getur hann orðið fyrir alvarlegum og óafturkræfum réttarspjöllum. Þess vegna ættu slíkar sendingar ekki að geta haft réttaráhrif, nema viðtakandi staðfesti móttöku þeirra sérstaklega eða hafi áður veitt samþykki sitt fyrir því að slík gögn séu birt honum með rafrænum hætti.
Athugasemdir: 1
-
15 feb., '24
Stafrænt Ísland StjórnandiTakk fyrir að senda inn ábendingu.
Óskalisti þjóðarinner er hugsaður sem farvegur ábendinga og hugmynda um þjónustur hjá hinu opinbera sem ætti að stafvæða.
Stafrænt Ísland fylgist með innsendingum og nýtir í forgangsröðun verkefna.
Þar sem erindi þitt snýr ekki að stafvæðingu opinberrar þjónustu á það ekki erindi hér.
Gangi þér vel.
Kveðja,
starfsfólk Stafræns Íslands